Elísabet Ósk Vigfúsdóttir
Um mig
Ég er menntuð fjölskyldufræðingur, ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur. Einnig hef ég lokið námi í Hugrænni atferlismeðferð og MÁPM námi í meðvirkni- og áfallameðferð sem er aðferð til þess að vinna með einstaklinga sem orðið hafa fyrir áföllum í uppvextinum sem síðar á lífsleiðinni hafa áhrif á þroska, líðan og hegðun einstaklings.
Einnig tók ég frekari sérhæfingu með viðbótarnámi í parameðferð og öðlaðist þannig aðferðarfræðilegrar þekkingar og dýpri skilning á parasambandinu og helstu áskorunum sem pör mæta eins og ágreining, samskiptum, kynlífi og foreldrahlutverkinu. Í kjölfarið tók ég næsta stig og öðlaðist löggildingu í námskeiðishaldi fyrir pör PREP (Prevention and Relationship Enhancement Program). Sú aðferð byggir á vísindalegum og margreyndum aðferðum við að hjálpa pörum að snúa við neikvæðu samskiptarmynstri og temja sér uppbyggilegar samskiptaleiðir sem styrkja parasambandið. Samkvæmt National Research and Analysis Centre for Welfare (VIVE) er PREP besta vísindalega rannsakaða paranámskeið í heimi. Síðast lauk ég námi sem Sáttamiðlari og uppfylli skilyrði félags Sáttar sem slík.
Í gegnum störf mín frá 2008 hef ég haft tækifæri til að læra og afla mér mikillar reynslu í meðferðarvinnu, þá bæði með fjölskyldum og einstaklingum. Ég legg mikinn metnað í að mæta einstaklingum á jafningjagrundvelli og af fordómaleysi. Mér finnst mikilvægt að vinna með rót vandans og notast ég við tilfinningalega meðferðarnálgun, verkfæri jákvæðrar sálfræði, lausnamiðamiðaða nálgun og hef tengslakenningar að leiðarljósi.

Ég býð uppá:
- Einstaklings- og fjölskyldumeðferð
- Parameðferð/hjónabandsmeðferð
- Áfallameðferð og tengslavanda
- Ráðgjöf um samskiptavanda og meðvirkni
- Ráðgjöf fyrir stjúpfjölskyldur
- Vímuefnavandi og skaðaminnkandi inngrip
- Sérhæfð þjónusta fyrir foreldra með börn eða verðandi foreldra sem glíma við vanlíðan, geðrænan og/eða vímuefnavanda eða hafa áhyggjur af þroska og/eða tengslamyndun til barns
- Sáttamiðlun í almennum samskiptaerfiðleikum og ágreining innan fjölskyldna eða vinnustaða.
Hvað er fjölskyldumeðferð?
Fjölskyldumeðferð er gagnreynt meðferðarúrræði (Evidence-based practice) og er skilgreind sem meðferð þar sem tekið er mið af fjölskyldunni sem heild, og velferð hennar höfð að leiðarljósi. Fjölskyldur í dag eru fjölbreyttar og geta tengsl innan þeirra verið flókin. Stundum erum við föst í neikvæðu mynstri, hefðum eða venjum sem erfitt er að komast frá, nema með aðstoð fagmanna. Oft þarf ekki nema fá viðtöl til þess að breyta venjum eða fá nýja sýn á vandann. Meðferðin getur verið í formi einstaklings, fjölskyldu og/eða hópameðferð þegar tekist á við: líkamleg og andleg veikindi, áföll af ýmsum toga, sorgarferli, barnauppeldi, samskipti, ágreining af ýmsu tagi, kynlífsvandamál og breytt fjölskyldumynstur t.d. í kjölfar skilnaðar allt eftir því sem við á hverju sinni.
Alveg sama hvernig fjölskylda okkar er samansett, þá er hún það umhverfi sem við ölumst upp í og komum frá þegar við göngum út í lífið. Dýpstu og sterkustu tengslin sem myndast á ævi einstaklings eru þau sem eru milli foreldris og barns svo þangað er einmitt að sækja þýðingarmiklar bjargir.
Reynt verður að vinna með rót vandans og notast við viðeigandi meðferðarnálganir þar sem lausnamiðuð, notenda- og áfallamiðuð þjónusta með skaðaminnkandi inngripum og tengslameðferð verður höfð að leiðarljósi. Fæðingarhræðsla foreldra eða úrvinnsla eftir erfiða upplifun foreldra af fæðingu fellur einnig vel undir samtalstækni og meðferðarvinnuna sem notast er við.
Hvað er sáttamiðlun?
Sáttamiðlun er aðferð til lausnar ágreinings, þar sem tveir eða fleiri aðilar taka sjálfviljugir þátt. Samtalið er ávallt í trúnaði. Með aðstoð óháðs og hlutlauss sáttamiðlara komast aðilar sjálfir að samkomulagi um lausn ágreiningsins, sem þeir meta viðunandi fyrir alla aðila, í gegnum skipulagt og mótað ferli.
Lausn deilunnar sett í forgang
Sáttamiðlun er notuð í auknum mæli af fyrirtækjum, stofnunum og einstaklingum. Deilan getur t.d. verið á milli fyrirtækja, vinnuveitanda og starfsmanns, nágranna eða innan fjölskyldna.
Í sáttamiðlun er lausn deilunnar sett í forgang og aðilarnir sjálfir spila stærsta hlutverkið, ólíkt hefðbundnum dómsmálum eða gerðardómsmálum. Sáttamiðlun veitir ákveðið frelsi við lausn ágreinings og eru aðilar ekki bundnir við sömu málsmeðferðarreglur og gilda fyrir dómstólum. Jafnvel þó málsmeðferð fyrir dómi sé hafin getur dómar ákveðið að málið fari í sáttamiðlun, telji hann það vænlegt til árangurs.
Sáttamiðlari aðstoðar aðilana við að skilja stöðu sína, þarfir aðilanna og sameiginlega hagsmuni, svo aðilar geti komist að sameiginlegri niðurstöðu og samkomulagi. Með sáttamiðlun komast aðilar hjá langdregnum dómsmálum. Lögfræðingar aðilanna eða aðrir sérfræðingar geta tekið þátt í sáttamiðluninni sé þess óskað.
Hvernig gengur sáttamiðlun fyrir sig?
Sáttamiðlun fylgir yfirleitt þessu ferli:
Aðilar sammælast um að leysa ágreining sinn með hjálp sáttamiðlunar
Aðilar hittast ásamt sáttamiðlara yfirleitt á hlutlausum stað
Aðilar útskýra hvor fyrir öðrum þeirra upplifun af vandanum eða deilunni
Hagsmunir og þarfir aðila eru ræddar
Möguleikar að lausn eru settir upp
Lausnin byggist upp á umræðum aðilanna
Komist er að samkomulagi í sameiningu
Sáttamiðlarinn sér til þess að hlustað sé á báða aðila og að þeir fái tíma til að koma fram með sín sjónarmið og tillögur að lausn. Viðskiptalegur ágreiningur leysist yfirleitt á 1-2 fundum, eftir umfangi deilunnar. Fjölskyldutengdur ágreiningur þarf stundum fleiri en skemmri fundi.
Hafa Samband


