Þegar fjölskyldan stækkar
parasambandið, nándin og tengsl
Næsta námskeið:
Þegar fjölskyldan stækkar – parasambandið, nándin og tengsl
Þetta námskeið er fyrir foreldra sem eiga von á barni og/eða eru með ung börn og vilja viðhalda gleðinni, nándinni og kærleikanum og á sama tíma efla parasambandið.
Í nútíma samfélagi fylgir foreldrahlutverkinu og parasambandinu mikið álag. Ágreiningur um tíma er oft mikill því það er ekki mikill tími aflögu og fólk gleymir eða gefur sér ekki tíma til hlúa að sambandinu. Pör átta sig oft ekki fyrr en aðeins fer að róast að nándin sé farin og kominn samskiptavítahringur. Mikilvægt er að undirbúa og upplýsa foreldra og veita þeim verkfæri til gagns fyrir framtíð fjölskyldunnar saman.
Á námskeiðinu verður varpað ljósi á nokka þætti sem algengt er að pör upplifi sem sérstaklega krefjandi og veittur innblástur á ýmis atriði sem geta auðveldað umskiptin og þróað sambandið á jákvæðan hátt samhliða foreldrahlutverkinu.
Nánar um námskeiðið
Þegar foreldrar eiga von á barni eiga sér stað miklar breytingar í lífi þeirra og geta neikvæðar hugsanir eins og áhyggjur og kvíði gert vart við sig. Ekki að undra enda stórt og mikilvægt hlutverk í vændum og vilja foreldrar sinna þessu hlutverki af ást og alúð og á ábyrgan hátt. Fyrir flesta verðandi foreldra er meðgangan þó ánægjutími sem einkennist af eftirvæntingu og tilhlökkun.
Það er algengt að verðandi foreldrar geri ráð fyrir því þegar þau eignist barn saman að það skapist meiri samheldni á milli þeirra enda ákveðið öryggi og staðfesta fólgin í því að þau hafi valið hvort annað sem foreldra.
En hvað?
Eftir að barnið fæðist og mitt í foreldragleðinni finnst mörgum foreldrum erfitt að viðhalda parasambandinu, nándinni og tengslum. Það hversu mikið álag og þreyta fylgir þessu nýja og merka hlutverki og hve mikil áhrif það getur haft á parasambandið kemur flestum pörum í opna skjöldu. Slíkt álag getur auðveldlega valdið því að árekstrar og átök í sambandinu aukist með tilheyrandi vanlíðan hjá öðrum eða báðum aðilum.
En einmitt þess vegna er svo mikilvægt að pör séu vel upplýst og meðvituð um það sem í vændum er og við hverju þau mega búast og fá hugmyndir um það hvernig viðhalda megi parasambandinu og nándinni.
Það verður farið m.a. farið yfir:
- Líffræðilegar, sálfræðilegar og félagslegar breytingar í barneignarferlinu
- Hormónabreytingar
- Breytingar á kynhvöt með breyttum aðstæðum og álagi og varpað fram ástæður og hugmyndir af bjargráðum
- Mismunandi nálgun í barneignarferlinu og hvernig viðhalda má virðingu og viðurkenningu hvort hjá öðru
- Ólíkar þarfir og hvernig bregðast megi við því
- Algeng samskiptavandamál sem geta valdið misskilningi og átökum í sambandinu
- Tengslin við hvert annað og mikilvægi öruggar tengslamyndunar við litla barnið
Kynntar verða aðferðir sem geta ráðið bót á samskiptum og parasambandinu þegar fjölskyldan stækkar. Svigrúm verður fyrir spurningar og þeim svarað eftir faglegri þekkingu. Foreldrar fá svo verkefni með sér heim eftir námskeiðið sem þeim er frjálst að vinna en verkefnin eru til þess gerð að efla og þroska sambandið, nándina, kærleikann og þar með fjölskylduböndin.
Leiðbeinandi námskeiðsins:
Elísabet Ósk Vigfúsdóttir
Fjölskyldufræðingur og ljósmóðir
Verð:
16.900 kr fyrir par.
Athugið að flest stéttafélög niðurgreiða námskeiðið við framvísun kvittunar sem þátttakendur fá við greiðslu.