Search
Urdarbrunnur_fjolskylda_og_heimili

Ástartungumálin fimm

Hvað er ástartungumál og hvaðan kemur það hugtak?

Öll tjáum við ást og umhyggju og tökum á móti ást og umhyggju á mismunandi hátt.
Ástartungumál eru einskonar tjáningarform eða leiðarvísir um ástina og er tungumálið
sem við tölum háð ýmsum þáttum eins og karaktereinkennum, uppeldi, fjölskyldumódeli
foreldra o.s.frv. Við höfum tilhneigingu til að „erfa“ tungumál ástarinnar, venjumst því að
tjá okkur á þann hátt og búumst við viðbrögðum á samskonar tjáningarformi.
Ef við 
viljum að maki okkar finni ást okkar verðum við að tjá hana á tungumáli sem hann skilur og öfugt.

Hugtakið kemur frá bandaríska rithöfundinum Gary Chapman, en hann gaf út bókina
The Five Love Languages fyrir rúmum tuttugu árum. Þar skilgreinir hann fimm
ástartungumál sem tákna fimm mismunandi leiðir hvernig við tjáum og þiggjum ást og
umhyggju.

Chapman setur fram þá kenningu að fólk hafi tilhneigingu til að tjá ást sína á þann hátt
sem það kýs sjálft að þiggja ást. Ef pör tala ekki sama ástartungumál geta skapast
áskoranir og vandamál þar sem ástin kemst ekki til skila. Með því hins vegar að læra inn
á ástartungumál okkar og maka okka getum við betur tjáð ást okkar á þann hátt sem
maki okkar skilur okkur og þannig hjálpað sambandinu að vaxa, ástinni að dýpka og
bætt samskiptin.

Samkvæmt Chapman eiga öll ástartungumálin fimm, sinn stað í samböndum, en hver
einstaklingur eigi sér eitt aðalástartungumál. 

Hver eru ástartungumálin fimm og hvernig er komið til móts við maka
sem talar 
annað ástartungumál?

  • Snerting og nánd (physical intimacy)
  • Þjónusta (service)
  • Orð eða hrós (words of affirmation)
  • Gæðastundir (quality time)
  • Gjafir (gifts)

Líkamleg snerting

Einstaklingar sem eru með líkamlega snertingu sem aðal ástartungumál upplifa mestu

ástina og sterkustu tengslin við maka sinn þegar þeir fá líkamleg merki um ást og
umhyggju. Fyrir utan kynlíf kunna þeir að meta þegar maki þeirra heldur í höndina á
þeim, snertir eða strýkur á þeim handlegginn, gefur þeim koss og faðmlag eða jafnvel
nudd í lok dags. Þeim finnst þeir vera elskaðir þegar þeir hafa líkamleg samskipti og
getur hvers kyns mild snerting miðlað ást.

Hugmyndir þeirra um dásamlegt stefnumót gæti verið að kúra saman í sófanum á
meðan horft er á kvikmynd, dansa rólega saman með líkamlegri snertingu eða fara
saman í göngutúr á meðan haldist er í hendur.

Ef þetta er aðal ástartungumál maka þíns gegnir snerting og nánd ykkar á milli þegar
tækifæri gefst yfir daginn stóru hlutverki. Hægt er uppfylla það t.d. með að leggja hönd á
öxl þegar þú færir makanum kaffibolla, snerta eða strjúka makann þegar þú gengur
framhjá og eins getur koss haft mikið að segja t.d. kyssa góðan dag eða góða nótt.

Þjónusta

Einstaklingar sem eru með þjónustu sem aðal ástartungumál kunna að meta hjálpsemi.
Góðverk fara ekki framhjá þessum einstaklingum, hvort sem þau eru stór eða smá.

Þjónusta er góðverk sem gerð eru fyrir makann sem lætur þeim finnast þeir elskaðir og
metnir. Þar er aðstoð við heimilisstörf oft vel metin, það að eldað sé fyrir þá, gengið frá
eftir matinn, bílinn fylltur af bensíni og að sinnt sé fyrir þá ákveðnum erindum. Eins hafa
þessir einstaklingar tilhneigingu til að framkvæma þjónustu og góðvild fyrir aðra líka.

Mikilvægt er að vita hvaða þjónustur skipta makann mestu máli, svo hinn aðilinn „kafni“
ekki í verkefnum. Ef það er mikilvægt fyrir makann að búið sé um rúmið á hverjum degi,
þá hjálpar kannski ekki að taka uppvaskið á hverjum degi. Fyrsta skrefið er að gera lista
yfir þá þjónustur sem makinn metur mest og ætti listinn ætti ekki að vera meira en 4-5
atriði en svo má koma á óvart þess á milli.

Ef helsta ástartungumál maka þíns er þjónusta, mun hann taka eftir og kunna að meta
litla hluti sem þú gerir fyrir hann. Góð hugmynd er að spyrja makann: "get ég aðstoðað
þig við eitthvað í dag?" en einnig er gott að taka eitthvað af fyrri óskum og framkvæma
án þess að spyrja.

Orð eða hrós

Einstaklingar sem eru með uppörvandi orð eða hrós sem ástartungumál finna fyrir
mestu ástinni þegar maki þeirra tjáir ástúð með töluðum orðum, lofi eða þakklæti og
eins vilja þeir oft heyra “ég elska þig“. Þessir einstaklingar njóta góðra orða og
hvatningar, uppbyggjandi tilvitnana, ástarbréfa og sætra textaskilaboða.

Hrós hittir marga í hjartastað, sértstaklega þegar það er ástvinur sem tjáir þau. Orðað hrós þarf
ekki að vera flókið, einungis einlægt og þá getur það hitt í hjartastað, dæmi eins og:

  • Þú færð mig svo oft til að hlæja
  • Mikið er góð lykt af þér
  • Ég elska þig
  • Ég kann að meta samverustundar með þér
  • Mikið lítur þú vel út í þessum jakkafötum

Hrós er ein leið í þessu tungumáli og hvatning önnur en hvatningarorð geta einnig verið heppileg
og veitt makanum hugrekki og öryggi, falleg og einlæg orð næra og hvetja!

Ef þetta er aðal ástartungumál maka þíns getur þú með því að hrósa honum eða benda
á hvað hann gerir vel veitt honum uppfyllingu í daginn og ekki má gleyma að hvetja
þegar það á við.

Gæðastundir

Einstaklingar sem eru með gæðastundir sem ástartungumál upplifa mestu ástina þegar
maki þeirra eyðir tíma með þeim og þeir elska að fá óskipta athygli. Það er þó algjört
lykilatriði að makinn sé fullkomlega til staðar á þýðingarmikinn og gagnvirkan hátt.

Hér er vert að skoða hversu miklum tíma er eytt í að tala við makann daglega? Ekki
bara hversdagslegt spjall eins og „góðan daginn“, „manstu eftir íþróttafötum fyrir
barnið“, „við fáum gesti um helgina“, „hvað eigum við að hafa í matinn“ o.s.frv. heldur
hversu miklum tíma þið eyðið í að ræða saman. Þar sem tekinn er púlsinn og spurt er af
áhuga um dag makans og hlustað hvernig hann hefur það. Rannsóknir sýna að það
tekur fimmtán mínútur að makinn finnast hann séður, heyrður og viðurkenndur.

Ef þetta er aðal ástartungumál maka þíns kann hann að meta fullarar nærveru frá þér
þegar þið eruð saman. Þetta þýðir þá að leggja frá sér farsímann, slökkva á tölvunni, ná
augnsambandi, hafa ígrunduð samskipti og hlusta á virkan hátt. Til að mæta þessu
getur ein hugmynd verið að kúra saman í rúminu í nokkrar mínútur og taka stutt innilegt
spjall áður en farið er á fætur á morgnana.

Að þiggja og gefa gjafir

Einstaklingar sem eru með gjafir sem aðal ástartungumál meta gjafir á aðeins annan
hátt en aðrir. Fyrir þeim eru gjafir mikilvægar og tákn um ást. Þeir meta ekki aðeins
gjöfina sjálfa heldur líka þann tíma og þá fyrirhöfn sem makinn lagði í að velja hana.
Það er ekki peningalegt vægi gjafanna sem skiptir máli heldur það sem liggur að baki. 

Þegar þú gefur þér tíma til að velja gjöf sérstaklega fyrir þá, segir það þeim að þú sért
hugsi og raunverulega þekkir og þykir vænt um þá og óskir þeirra. Auðvitað eru sumir
meira fyrir veigameiri gjafir eins og blóm, skartgripi eða bækur en oft er þetta einfaldlega
það að makinn færi honum eitthvað hugulsamt.

Ef aðal ástartungumál maka þíns eru gjafir kann hann að öllum líkindum að meta að þú
komir honum á óvart eða færandi hendi með kaffi, ís eða slíkt. Það getur einnig verið
hugmynd að kippa uppáhalds súkkulaðinu með úr búðinni og færa eða lauma litlum
miða með fallegu orði/setningu í veskið/jakkavasann.

Eru önnur ástartungumál?

Samkvæmt ramma Chapmans hafa upprunalegu ástarmálin fimm verið þau sömu, en
það þýðir ekki að það séu ekki aðrar leiðir til að tjá og taka á móti ást.

Þetta er aðeins einn rammi og það hafa verið lagðar til nokkrar viðbætur í gegnum árin
eins og:

  • Sameiginleg upplifun
  • Tilfinningalegt öryggi
 

Því meira sem við hugsum um okkur sjálf og það sem fyllir sambandstankinn okkar, því
fleiri leiðir höfum við til að hjálpa maka okkar að elska okkur á þann hátt sem við viljum
helst vera elskuð.

Hvaða ástartungumál talar þú og hvað talar maki þinn?

Farðu í sjálfsskoðun og skoðaðu vel hvort þú upplifir meiri ást í sambandi þegar maki
þinn:

  • Segir þér: „Ég elska þig“, hrósar einhverju sem þú gerðir, eða hvetur þig áfram þegar þú finnur óöryggi?
  • Kemur þér á óvart með gjöf eða sendingu með fallegum boðskap sem skiptir þig máli?
  • Er að skipuleggja date, ferð eða kvöldstund bara fyrir ykkur tvö?
  • Fer í erindin, þvottinn eða býður þér hjálparhönd sem þú kannt að meta og léttir undir með þér?
  • Heldurðu í höndina á þér á meðan þið eruð að ganga, knúsar þig og gefur koss?
 

Svar við þessum spurningum getur gefið þér vísbendingu um hvert aðal ástartungumál
þitt er. Þú gætir líka reynt að rifja upp hvers konar hluti þú biður um í sambandi eða
íhuga hvernig þú tjáir maka þínum ást og umhyggju.
Taktu samtalið við makann þinn og spurðu hann líka, því ástartungumálin má einnig líta
á sem tækifæri til samtals.
Ástartungumál maka þíns er kannski ekki það sama og þitt. Þegar pör hafa mismunandi
aðal ástartungumál, er víst að misskilningur gæti skapast. Hins vegar, ef maki þinn lærir
að tala þitt ástartungumál og þú makans, mun hann líklega upplifa sig elskaðan og
metinn og öfugt.

Ástartungumálin geta hjálpað pörum að skilja sig og hvort annað betur. Með því að átta
sig á því hvernig maður upplifir ást og umhyggju og geta sett orð á það, gefst manni
tækifæri til að færast nær makanum sínum. Með dýpri skilningi á eigin tjáningu og
þörfum makans styrkist gagnkvæmur skilningur og sambandið styrkist.

Fyrir þá sem vilja skoða þetta nánar þá er hægt að fylla út próf hér og eins er heimasíða
5 love languages afar fróðleg. Þar er ekki bara að finna efni um pör heldur getur efnið
hjálpað að fá betri skilningi á börnum sínum.
Bókina er svo hægt að kaupa 
Amazon.com